Innlent

Gísli Marteinn leiðtogaefni

MYND/VALLI
Samkvæmt viðhorfskönnun IMG Gallup, telja borgarbúar Gísla Martein Baldursson líklegastan leiðtogaefna sjálfstæðismanna í Reykjavík til að velta R-listanum úr sessi og leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í næstu borgarstjórnarkosningum. Könnunin var unnin fyrir áhugamenn um borgarmál, sem telja tímabært að Sjálfstæðisflokkurinn komist að stjórn borgarinnar í stað R-listans. Könnunin var símakönnun, framkvæmd á tímabilinu 23. júní til 26. júlí. Endanlegt úrtak voru 1102 Reykvíkingar á aldrinum 18-75 ára sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Fjöldi svarenda var 629, sem þýðir að svarhlutfall var 57,1% . Fyrst voru borgarbúar spurðir hvern tilgreindra einstaklinga þeir teldu líklegastan til að velta R-listanum úr sessi og leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í næstu borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Nefndir voru 5 einstaklingar og skiptust svör aðspurðra sem nefndu einhvern þeirra svo: Gísli Marteinn Baldursson: 36,9%, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson: 29,7% Guðlaugur Þór Þórðarson: 13,4%, Hanna Birna Kristjánsdóttir 12,7%, Júlíus Vífill Ingvarsson 7,2%.  Síðan voru borgarbúar spurðir hvorn þeirra tveggja, sem reyndust hafa mest fylgi samkvæmt fyrri spurningunni, Gísla Martein Baldursson eða Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, þeir teldu líklegri til að velta R-listanum úr sessi og leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í næstu borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Af þeim sem nefndu annan hvorn skiptust svörin svo: Gísli Marteinn Baldursson 53,6% Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson 46,4%. Þegar litið er til kynjanna í síðari spurningunni nefndu 51% þeirra karla sem afstöðu tóku Gísla Martein en 49% Vilhjálm, á meðan 56% kvenna sem afstöðu tóku nefndu Gísla Martein en 44% Vilhjálm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×