Innlent

Vatnavextir skemmdu bíla

Nokkrir bílar skemmdust í Lindá við Herðubreiðarlindir um helgina þegar vatn flóði yfir vélar þeirra. Hrafnhildur Hannesdóttir landvörður í Herðubreiðalindum segir að í hlýindunum og góðviðrinu að undanförnu hafi vaxið mjög í Jökulsá á Fjöllum. Þá hækki einnig í Lindá sem bílar þurfa að fara yfir á leið sinni í Herðubreiðarlindir og Öskju. "Við höfum haft í nægu að snúast alla helgina við að draga bíla upp úr Lindá. Sumir þeirra eru með skemmdar vélar en aðrir hafa komist í gang aftur. Vaðið yfir ána er viðsjárvert fyrir minni bíla þegar hækkar í Jökulsá á Fjöllum því hún heldur á móti straumnum í Lindá svo nærri ármótunum." Hrafnhildur segir að þrátt fyrir þetta hafi enginn verið hætt kominn vegna flóðanna. Talsverð umferð hefur verið við Öskju og í Herðubreiðarlindum um Verslunarmannahelgina og gisti umtalsverður fjöldi á tjaldstæðum og í skálum í Herðubreiðarlindum og í Drekagili við Öskju. "Umferðin var minni í Kverkfjöll sennilega vegna þess að í mestu vatnavöxtunum flæddu Kreppa og Jökulsá yfir vegina í grennd við brýrnar í Krepputungu," segir Hrafnhildur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×