Innlent

Engin nauðgun tilkynnt

Engin nauðgun hefur verið tilkynnt yfir verslunarmannahelgina. Þeir sem vinna að forvörnum segja þetta vissulega gleðiefni en taka þessu þó með nokkrum fyrirvara þar sem kynferðisbrot eru oft ekki tilkynnt fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Nauðganir hafa því miður fylgt skemmtunum verslunarmannahelgarinnar undanfarin ár. Í fyrra voru níu nauðganir tilkynntar, engin kærð. 2003 voru tvær tilkynntar, ein kærð. Fimm mál komu upp 2002, ein nauðgun var kærð. Árið 2001 var sérstaklega slæmt, en þá var 21 mál tilkynnt, en þar af voru einungis fjögur kærð. Og árið tvö þúsund voru tvær nauðganir tilkynntar, þar af var önnur þeirra kærð. Í ár hefur engin kæra komið fram. Hjálmar Sigmarsson, frá karlahópi Feministafélagsins, segir þetta vera gleðiefni ef rétt reynist að ekkert hafi komið upp. Hann sagði jafnframt að tilkynningar og kærur kæmu yfirleitt seint, ef þær kæmu. Hann sagði karlahópinn taka þessu með miklum fyrirvara en vona það besta. Eyrún B. Jónsdóttir, umsjónarhjúkrunarfræðingur neyðarmóttökunnar á Landspítalanum tekur í sama streng - hún voni svo sannarlega að það sé rétt að engar nauðganir hafi átt sér stað, en hún segir mikið af  kynferðisbrotamálum koma til þeirra á móttökunni eftir helgina, þegar stúlkurnar koma í bæinn. Hún minnir á að þolendur kynferðisbrota geta leitað á Neyðarmóttöku þótt nokkuð sé liðið frá atburði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×