Innlent

Áhættusamt að leika fyrir Eastwood

Íslensku aukaleikararnir sem taka þátt í mynd Clints Eastwoods, Flags of our Fathers, þurfa að greiða tvær milljónir króna í skaðabætur, týni þeir einhverjum þeirra leikmuna sem þeir fá úthlutað. Hundruð Íslendinga hafa tekið að sér aukahlutverk í myndinni. Þeir fá úthlutað búningum með öllu tilheyrandi - hjálmum, bakpokum og byssum. Það er hins vegar eins gott fyrir þá að passa uppá hlutina, því í samningi sem fréttastofa hefur undir höndum og öllum leikurunum er gert að skrifa undir áður en þeir hefja störf er eftirfarandi grein: ,,Undirritaður samþykkir og gerir sér grein fyrir að vegna hlutverks síns gæti hann fengið í hendurnar leikmuni sem eru vopn og fylgihlutir. Þessir leikmunir eru alfarið á ábyrgð leikarans frá því hann fær þá í hendurnar og þar til leikmunaverðir taka við þeim aftur. Sé þessum leikmunum ekki skilað til baka mun fara fram lögreglurannsókn og leggst á viðkomandi fjársekt að upphæð 2 milljónir ISK." sem sagt, ef nokkuð það sem er í þeirra vörslu týnist eða hverfur, er hægt að krefja þá um tvær milljónir króna í skaðabætur. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að sumir leikaranna hafi áhyggjur af þessu ákvæði, þar sem þeir þurfi í sumum atriðum að stökkva í sjóinn og þar sé auðveldlega hægt að missa hluti sem ólíklegt er að finnist aftur. Auk þess eru sum atriðin nokkuð hættuleg, en leikararnir eru ekki tryggðir. Þess má geta að samkvæmt heimildum fréttastofu fá aukaleikararnir greiddar um fimm þúsund krónur á dag fyrir um tólf tíma vinnu, svo ef þeir týna einhverju eða missa, þyrftu þeir að vinna í tæpar fimm þúsund klukkustundir til að greiða skaðabæturnar. Reyndar lengur, því væntanlega greiða þeir skatta af laununum. Ekki náðist í forsvarsmenn Eskimo models, sem gerir samningana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×