Innlent

Nýjar tjaldbúðir settar upp

Um tuttugu lögregluþjónar voru staddir á Kárahnjúkum um hádegisbilið í gær en þá rann út fresturinn sem mótmælendur höfðu til þess að ganga frá og taka saman föggur sínar að sögn Helga Jenssonar, fulltrúa sýslumannsins á Seyðisfirði. Síðasta tjaldið féll hins vegar ekki fyrr en síðdegis án þess að til átaka kæmi milli mótmælenda og lögreglu. Lögregla skildi við mótmælendurna um leið og þeir komu í hlaðið á Vaði í Skriðdal hjá Guðmundi Árnasyni bónda og formanns Félags um verndun hálendis Austurlands. "Það var nú eiginlega bara af mannúðarástæðum sem ég bauð þeim að koma til mín," segir Guðmundur. "Kirkjan var búin hrekja þau í burtu sem samrýmist nú ekki kenningum biblíunnar. Þannig að ég ákvað að bjóða þeim að vera hérna á túninu hjá mér." Um níutíu mínútna akstur er frá Vaði til Kárahnúka. Áfram verður hert löggæsla við Kárahnjúka að sögn Helga en lögreglumönnum á Egilsstöðum hefur borist liðsstyrkur frá Ríkislögreglustjóra. Þá komu lögregluþjónar frá Eskifirði að löggæslunni við Kárahnjúka í gær. Þremur Bretum, sem handteknir voru í átökunum við Kárahnjúka aðfaranótt þriðjudags, var sleppt í fyrrakvöld eftir að í ljós kom að Útlendingastofnun taldi ekki ástæðu til þess að vísa þeim úr landi. Fólkið fór aftur upp að Kárahnjúkum eftir að þeim var sleppt að sögn Gísla M. Auðbergssonar, sem skipaður hefur verið verjandi þeirra. Gísli fór að Kárahnjúkum í gær og fundaði með mótmælendum sem hann telur hafa verið þrjátíu til fjörutíu talsins. "Ég fór yfir lögfræðilega hlið málsins með hópnum," segir Gísli. Mótmælendahópurinn samanstendur að mestu af Englendingum og Skotum en auk þess voru á svæðinu nokkrir Íslendingar. Ekki er um skipulögð samtök að ræða að sögn Birgittu heldur einstaklingsframtak hvers og eins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×