Innlent

Mótmælendur yfirgefa tjaldstæðið

Frestur, sem fulltrúi sýslumanns á Seyðisfirði gaf mótmælendum við Kárahnjúka til að rýma tjaldsvæðið í landi Valþjófsstaðar, rann út klukkan tólf og lögreglulið er á leið á svæðið til að ganga úr skugga um að því verði framfylgt. Sigurður Ingólfsson fréttaritari Bylgjunnar var á svæðinu í morgun og sagði að okkar er á staðnum í hádeginu og sagði fólkið vera byrjað að taka saman tjöldin og væru að funda um næstu aðgerðir. Þau ætla að tjalda annars staðar en nákvæm staðsetning á fyrirhuguðu tjaldstæði liggur ekki fyrir. Hann sagði mótmælendur vera hissa á því hvernig staðið hefur verið að brottrekstrinum og þá sérstaklega á því hversu stuttan fyrirvara þau hefðu fengið. Tveir erlendir karlmenn og ein kona, sem voru handtekin eftir átök við lögreglu á vinnusvæði við Kárahnjúka í fyrrinótt, voru látin laus í gærkvöldi, en fyrr um kvöldið lá fyrir að Útlendingastofnun teldi ekki tilefni til að vísa fólkinu úr landi. Bæði Landsvirkjun og verktakafyrirtækið Impregilo ætla í dag að kæra mótmælendurna fyrir eignaspjöll. Allt var með kyrrum kjörum á vinnusvæðunum í nótt og fékk lögregla enga beiðni um aðstoð. Lögreglunni eystra barst í gær liðsauki frá Ríkislögreglustjóra og er nú vakt á vinnusvæðunum allan sólarhringinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×