Innlent

Sýnir málverk í Hljómskálagarðinum

Einar Hákonarson listmálari ætlar að sýna hátt í níutíu málverk í tveimur stórum tjöldum í Hljómskálagarðinum í Reykjavík í ágúst. Sýningin hefst kvöldið fyrir Menningarnótt, stendur yfir í um tíu daga og ber nafnið: Í grasrótinni. "Mig langar til þess að færa landsmönnum málverkið á nýjan leik og vil frekar mynda tengsl við almenning en listaelítuna," segir Einar. Einar segir sýninguna einnig haldna þar sem málverkum hans hafi ítrekað verið hafnað þegar hann hafi leitað eftir því að þau væru sýnd í listasölum borgarinnar. "Niðurstaðan varð því sú að ég fékk leyfi borgaryfirvalda til þess að setja upp þessa sýningu í tjöldum." Einar gagnrýnir stefnu forsvarsmanna Listasafns Reykjavíkur og segir þar ómaklega vegið að listmálurum. "Fjöldi þjóðkunnra listmálara hefur ekki fengið að sýna verk sín í sölum borgarinnar vegna þess að stjórnandi þeirra vill ekki sýna verkin," segir Einar. "Ég vil hins vegar meina að það sé röng stefna að hafna einni listgrein nær alfarið." Verkin á sýningunni málaði Einar flest í Prag og segir þau krufningu á þjóðfélaginu. "Ég er fyrst og fremst að bjóða fram mitt málverk og er harður á því að málverkið er fullfært um að endurmynda tengsl við almenning, sem mér finnst hafa rofnað," segir Einar. "Það er ekki stefna Listasafns Reykjavíkur að leigja út sali til sýninga heldur er forstöðumanni falið að móta listræna stefnu um hvers konar sýningar þar eru haldnar," segir Stefán Jón Hafstein, formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar. "Það er stefna langflestra listasafna sem halda úti menningarpólitík sem er samkvæm sjálfri sér og hana höfum við stutt." Ekki náðist í Eirík Þorláksson, forstöðumann Listasafns Reykjavíkur, í gær en hann var á fjöllum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×