Innlent

Fréttablaðið bætir sig á landsvísu

Lestur Fréttablaðsins hefur aukist á landsvísu samkvæmt nýjustu fjölmiðlakönnun IMG Gallup og er kominn í 67% úr 66%. Á sama tíma hefur lestur Morgunblaðsins fallið úr 52% í 49% og DV úr 19% í 16%. Tilkoma Blaðsins kann að hafa áhrif á lestur annarra blaða en því er einungis dreift á höfuðborgarsvæðinu. Þar er blaðið með 44% meðallestur, en 29% á landsvísu. Þetta er ívið minni lestur en Fréttablaðið var með í sinni fyrstu könnun í október árið 2001. Þá mældist meðallestur þess á höfuðborgarsvæðinu 59% og á landsvísu 38%. Á það er þó að líta að Blaðið hefur göngu sína í heldur meiri samkeppni en Fréttablaðið þá, þegar ekki voru aðrir um hituna en Morgunblaðið og DV. Frídreifing var nokkur könnunardagana, en frídreifing Morgunblaðsins, nam 5,1% og DV 4,6%. Þegar horft er til uppsafnaðs áhorfs könnunarvikuna er Sjónvarpið með mest áhorf sjónvarpsstöðva, með 95%. Áhorf á bæði Stöð tvö og Skjá einn minnkar milli kannana, en þar koma að einhverju leyti til áhrif þriggja landsleikja sem allir voru í könnunarvikunni, en í handbolta tókust Íslendingar á við Svía og svo síðar í vikunni við Ungverja og Maltverja í fótbolta. Fótboltaleikirnir voru báðir á sýningartíma frétta Stöðvar tvö og Íslands í dag. Stöð tvö mældist með 71% áhorf og Skjár einn 66%. Horf á Stöð tvö plús eykst og fer í 28% og Stöð tvö bíó er í 24 prósentum. Vinsælasti sjónvarpsþáttur landsins er tvímælalaust Út og suður í umsjá Gísla Einarssonar fréttamanns, með 36% uppsafnað áhorf á bæði frum- og endursýningar. Ef hins vegar er einungis horft til sjónvarpsáhorfs fólks undir fimmtugu þá er sjónvarpsþátturinn Taktu lagið með Hemma Gunn sá vinsælasti af íslenskum þáttum með 28% uppsafnað áhorf. Af öðrum sjónvarpsþáttum í sama aldursflokki hafa Aðþrengdar eiginkonur aðeins meira áhorf með 34% og Lífsháski (Lost) með 33%.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×