Innlent

Héraðsverk bauð lægst í veginn

Tíu fyrirtæki skiluðu tilboðum í gerð malarvegs inn með austurströnd væntanlegs Hálslóns við Kárahnjúka, frá gatnamótum á Kárahnjúkavegi sunnan Sandfells að Litlu-Sauðá inn undir Brúarjökli. Vegurinn verður um 18 kílómetra langur. Lægst bauð Héraðsverk á Egilsstöðum, tæpar 106 milljónir króna, um 46 prósent af kostnaðaráætlun sem hljóðaði upp á röskar 230 milljónir króna. Næst lægst buðu Jarðvélar ehf. sem vildu leggja veginn fyrir tæpar 115 milljónir. "Með veginum opnast aðgengi að allri austurströnd lónsins svo hægt verður að sinna eftirliti og fyrirhuguðum varnaraðgerðum gegn áfoki frá þeim hluta lónbotnsins sem verður á þurru fyrri hluta sumars," segir á vef Kárahnjúkavirkjunar, en hefja á framkvæmdir fyrir haustið og á þeim að ljúka á næsta ári. Landsvirkjun segir að gengið verði mjög fljótlega frá vali á verktaka sem annast á lagningu vegarins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×