Innlent

Sár og sorgmæddur

"Mér brá þegar ég heyrði að búið væri að gera árás á Lundúnir," segir Davíð Oddsson utanríkisráðherra. "Ég var að undirbúa fund með James Gadsden, bandaríska sendiherranum, þegar ég heyrði þetta fyrst. Þegar sendiherrann kom horfðum við saman á fréttir frá Lundúnum á Sky og CNN. Við vorum báðir svekktir, sárir og sorgmæddir þegar við sáum hvað hafði gerst." Davíð segir árásina í gær einkar ófyrirleitna. Spjótunum sé beint að saklausum borgurunum sem geti ekki varið sig. Hann segist eiga marga kunningja í Lundúnum og sem betur fer hafi hann ekki heyrt af neinum sem hafi lent í vandræðum. Davíð segir að þetta sé versta hryðjuverk í sögu Bretlands. Þegar Írski lýðveldisherinn hafi gert árásir hafi hann yfirleitt látið vita hvar og hvenær yrði sprengt. Aðspurður hvort hann telji að árásin tengist þátttöku Breta í Íraksstríðinu segir Davíð að það geti vel verið. "Bretar hafa verið virkustu bandamenn Bandaríkjanna í Írak og því eru þeir líklegast frekar skotmark en ella. Ætla má að þeir séu óvinir númer tvö á eftir Bandaríkjunum hjá þeim öfgamönnum sem gera svona árásir." Davíð segist telja að staða Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sé sterk. "Oftast þjappar fólk sér á bak við stjórnvöld þegar svona atburðir gerast. Í það minnsta fyrstu mánuðina og misserin á eftir." Davíð segir alveg ljóst að hryðjuverkin hafi verið þaulskipulögð. Ódæðismennirnir hafi gert árásirnar á sama tíma og G8-fundurinn hafi verið að hefjast. Þar með hafi þeir tryggt að kastljós fjölmiðlanna væri mjög nærri og öryggisgæsla ekki jafnmikil og venjulega í Lundúnum þar sem fjöldi löggæslumanna væri í Edinborg að gæta þess að þar fari allt vel fram. Davíð segist telja það algjöra tilviljun að árásin hafi verið gerð degi eftir að tilkynnt var að Lundúnir fengju að halda Ólympíuleikana árið 2012. "Ef einhver hefði viljað koma í veg fyrir að leikarnir færu fram í Lundúnum hefðu þeir væntanlega sprengt tveimur dögum fyrr."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×