Innlent

Samfelld byggð á strandlínunni

Skipulagsráð Reykjavíkur hefur samþykkt tillögur um breytingar á deiliskipulagi við Baróns- og Skuggareit við norðurströndina í Reykjavík. Eftir að byggingar hafa risið á þessum reitum er gert ráð fyrir að samfelld byggð myndist þegar litið er á strandlínuna frá Laugarnesi. "Í Skuggareitnum gerum við ráð fyrir því að tveir turnar rísi til viðbótar við þann sem þar er. Þessir turnar verða tólf og fjórtán hæða. Við gerum enn frekar ráð fyrir því að búa til betra rými milli húsanna þannig að þarna verði ekki of þröngt. Þar verður því eins konar torg og þjónusta fyrir þá sem þarna búa. Mikill metnaður af hálfu þeirra sem byggðu þennan fyrsta turn hefur leitt til þess að þarna hefur verið mikil eftirspurn eftir íbúðum," segir Dagur. Hann segir að áhugi sé á að hefja framkvæmdir á þessu svæði í haust eða næsta vetur. Enn fremur ákvað skipulagsráð að auglýsa breytingu á deiliskipulagi á hinum svokallaða Barónsreit á mörkum Barónsstígs og Hverfisgötu. Þar er gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði rétt eins og í Skuggareitnum. "Borgin býður þennan byggingarreit út. Þarna sjáum við fyrir okkur að þeir sem skili tilboðum sýni metnað í útliti, hönnun og öðru. Við gerum ráð fyrir um hundrað íbúðum fyrir stúdenta en þarna erum við einnig að líta til þess að þær byggingar sem þarna rísa verði bakland fyrir skipulag Hlemmsvæðisins og miðborgarinnar," segir Dagur. Hann segir að þegar hafi verið ráðist í töluverð uppkaup á fasteignum á Barónsreitnum þar sem hrörlegri eignir hafi verið keyptar. Dagur segir afar ánægjulegt að strandlengjan fái heildarmynd og mörgum finnist mikilvægt að sjá þetta svæði sem eina strandlínu og nú hylli undir þann draum. "Miðborgin er eftirsóttasta íbúðarsvæðið í Reykjavík í dag og með þessum verkefnum svörum við þeirri eftirspurn," segir Dagur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×