Innlent

Samstaða með fórnarlömbum

Íslandsdeild Amnesty International efndi til stundar á Lækjartorgi í gær til að sýna fórnarlömbum hryðjuverkaárásana í Lundúnum samstöðu og samúð. Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að árásir á almenna borgara séu aldrei réttlætanlegar og að slíkar árásir sýni algjört virðingarleysi gagnvart mannhelgi. Einnig er tekið fram að þeir sem beri ábyrgð á hryðjuverkunum verði að svara til saka í réttarhöldum sem samræmast alþjóðlegum viðmiðum. Árásina bar upp á sama dag og minningarathöfn fór fram um Peter Benenson stofnanda Amnesty International í kirkju í Lundúnum og segir í tilkynningunni að ákall hans um samstöðu með öllum þeim sem sæta mannréttindabrotum hafi verið brýnt í gær sem alla aðra daga. Jóhanna K. Eyjólfsdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildarinnar segir mætinguna á Lækjartorg hafa verið framar vonum, sérstaklega ef tillit er tekið til þess hversu fyrirvarinn var stuttur. Greinilegt hafi verið að almenningur hafi viljað sýna hluttekningu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×