Innlent

Hefur ekki áhrif á flug

Sprengingarnar í Lundúnum hafa ekki áhrif á áætlunarflug Icelandair og Iceland Express. Hundruð Íslendinga eiga pantaða ferð með flugfélögunum til og frá Lundúnum í dag. Heathrow-velli og öðrum flugvöllum í grennd við Lundúnir hefur ekki enn verið lokað þrátt fyrir sprengjuárásirnar í borginni. Bæði Icelandair og Iceland Express hafa fylgst vel með þróun mála ytra í morgun og hafa mjög margir haft samband við flugfélögin vegna atburðanna. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir starfsemina með eðlilegum hætti. Flogið verði tvisvar til og frá London í dag. Birgir Jónsson, framkvæmdastjóri Iceland Express, segir að margir farþegar hafi þegar óskað eftir því að breyta flugáætlun sinni vegna sprenginganna. Hann segir að félagið haldi uppi fullri þjónustu en morgunvél Iceland Express lenti á Stansted rétt fyrir hádegi og önnur vél heldur utan klukkan fjögur í dag. Birgir segir ljóst að ástandið í Lundúnum seti strik í reikninginn en að svo stöddu fylgist menn vel með gangi mála.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×