Innlent

Ánægð með Ólympíuleikana

Ánægja greip um sig meðal starfsfólks og viðskiptavina Söluturnsins London í Austurstræti í Reykjavík þegar spurðist að Ólympíuleikarnir verði haldnir í stórborginni London á Englandi árið 2012. "Við erum mjög ánægð með þetta," segir Steindóra Andreasen afgreiðslukona, sem staðið hefur bak við búðarborðið í London í átta ár og afgreitt ís, pylsur og sælgæti. Hún er þó ekki viss um að þessi ákvörðun Alþjóða Ólympíunefndarinnar verði söluturninum sérstaklega til uppdráttar enda heimsborgin jafnan á hvers manns vörum og þurfti svo sem ekki Ólympíuleika til að koma henni í umræðuna. Steindóru er vitaskuld hlýtt til London og segir hana næst bestu borg í heimi. Best kann hún við sig í miðborg Reykjavíkur þar sem mannlífið er líflegt og fjölbreytt. Segja má að eigendur London hafi staðið á milli tveggja elda en um leið verið með pálmann í höndunum þegar valið stóð í lokin á milli borganna tveggja; London og Parísar. Þeir eiga nefnilega líka Kaffi París og höfðu undir það síðasta unna stöðu í málinu. Ekkert fyrirtæki á Íslandi heitir New York eða Madrid og þaðan af síður Moskva.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×