Innlent

Framsókn undir 4% í Reykjavík

Framsóknarflokkurinn mælist með 3,9 prósenta fylgi að meðaltali í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur samkvæmt könnun Gallup frá því í byrjun mánaðarins. Fylgi flokksins í Reykjavík hefur því lækkað um tæpt prósentustig frá því í könnun Gallup í maí en þá mældist fylgi hans í Reykjavík í sögulegu lágmarki eða 4,6 prósentum. Aðrir flokkar mælast með svipað fylgi og í könnun Gallup frá því í maí nema Sjálfstæðisflokkurinn sem hækkar úr 38,4 prósentum í rúm 40 prósent. Samfylkingin fer úr 36,7 prósentum í 36,6 prósent, Vinstri grænir fara úr 17,1 prósenti niður í 16,8 prósent og Frjálslyndi flokkurinn fer úr 2,7 prósentum niður í 1,8 prósent. Fylgi Frjálslynda flokksins hefur nokkrum sinnum mælst lægra en nú en lægst mældist það í september 2002 eða 1,6 prósent. Fylgi Framsóknarflokksins hefur lækkað jafnt og þétt á landsvísu en í könnun Gallup frá því í maí mældist fylgi flokksins í sögulegu lágmarki eða 8,5 prósent á landsvísu en flokkurinn mældist með 8,7 prósentustiga fylgi í könnun Gallup nú. Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar ekki mælst með svo lágt fylgi í Reykjavík áður í könnun Gallup. Samkvæmt gögnum sem Fréttablaðið hefur fengið og unnin hafa verið úr könnunum Gallup hefur fylgi hans í sumar ekki verið lægra síðan það mældist 4,9 prósent í júlí 2004. Í kosningunum í maí 2003 fékk flokkurinn um 11,5 prósenta fylgi í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur að meðaltali og er núverandi fylgi hans því rétt um þriðjungur þess fylgis eða 7,6 prósentustigum minna en í kosningunum. "Það er augljóst að við höfum verk að vinna. Kosturinn við þessa stöðu er sá að frá henni getur leiðin ekki legið nema upp á við og þangað stefnum við," segir Jónína Bjartmarz, þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×