Innlent

ASÍ gagnrýnir hagstjórn ríkisins

Ríkisstjórnin axlar ekki þá ábyrgð sem hún á að gera á hagstjórn landsins og lítur því út fyrir að þjóðarbúið muni lenda harkalega við lok stóriðjuframkvæmda. Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð sem hagdeild Alþýðusamband Íslands hefur gefið út um ástand efnahagsmála hér á landi og stöðuna í þjóðarbúskapnum. Þá segir ASÍ að það dugi skammt að framlengja góðærið hér á landi með frekari stóriðjuframkvæmdum. Beita þurfi aðhaldi í opinberum fjármálum og skera niður framkvæmdir. Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í fjárlaganefnd, telur að hið opinbera hafi farið óvarlega í kjarasamningum undanfarin ár og mikilvægt sé í öllu tali um aðhald í ríkisfjármálum að farið sé varlega í launamálum. "Það eru allir að gagnrýna útgjöld ríkisins og hins opinbera og segja að það þurfi að skera þau niður. Þá verða menn að átta sig á því hver þessi útgjöld eru. Þetta eru fyrst og síðast laun og það er enginn þáttur í ríkisútgjöldunum sem hefur afgerandi áhrif á efnahagsþróunina önnur en launaþróun opinberra starfsmanna. Seðlabankinn með blessun forsætisráðherrans hefur sett sér 2,5 prósenta verðbólgumarkmið. Til að standa við það hefur hann verið að hækka stýrivexti og þar með staðið fyrir gengishækkun krónunnar. Það má sannarlega velta fyrir sér hvort þessi markmið séu raunhæf þegar hið opinbera hækkar laun um 6-8 prósent ár eftir ár," segir Einar Oddur Kristjánsson. Hann bendir einnig á að viðskiptahallinn sé ekki einungis vegna stóriðjuframkvæmda heldur sé um að ræða gríðarlega einkaneyslu. Í greinargerð ASÍ kemur fram að á síðustu fimm árum hafi útgjöld hins opinbera vaxið um 9 prósent á ári og á síðasta ári hafi þau aukist um 7 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×