Innlent

Verðlækkanirnar gengu til baka

Verðlækkanir lágvöruverðsverslananna frá því í vor hafa að mestu gengið til baka. Þetta leiðir ný verðkönnun Alþýðusambands Íslands í ljós. ASÍ birti í gær verðkönnun sem gerð var 2. júlí síðastliðinn. Í henni var borið saman verð nokkurra verslana á vörukörfu með almennum neysluvörum til heimilisins, til dæmis mjólkurvörum, osti, brauði, ávöxtum og kjöti. Ef niðurstöður könnunarinnar eru bornar saman við verðkönnun sambandsins frá 11. maí síðastliðnum kemur í ljós að nokkur hækkun hefur orðið á verði í Bónus, Krónunni og Kaskó en verð hins vegar lækkað í öðrum verslunum. Skemmst er að minnast verðstríðs á milli lágvöruverðsverslananna í vor en greinilegt er að þær verðlækkanir sem neytendur nutu þá eru að mestu gengnar til baka. Hróar Björnsson, rekstrarstjóri Krónunnar, segir að baráttan á markaðinum í vor hafi orsakað lágt vöruverð í fyrri könnunum. "Það hlaut hins vegar klárlega að koma að þeim tímapunkti að þessar öfgar sem verðlagning var komin út í þá myndi ganga til baka að hluta. Baráttan heldur samt áfram." Könnunin sýnir að dregið hefur saman með lágvöruverðsverslununum og öðrum matvörubúðum. Þannig er munur á hæsta og lægsta verði vörukörfunnar nú rúm 76 prósent en var í maí tæplega 100 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×