Innlent

Rafræn skráning framför

Aðstoðarlækningaforstjóri Landspítalans segir rafræna skráningu um sjúklinga framför. Hann segir kerfið gott og minnir á að læknar hafi haft jafnan aðgang að heilsufarsupplýsingum áður, en þá hafi tekið lengri tíma að safna þeim saman. Sögukerfið svokallaða, sem er rafrænn gagnagrunnur sjúkraskráa, hefur verið í notkun á Landsspítalanum um nokkurra ára skeið. Í þessu kerfi er öllum upplýsingum um sjúkling safnað í rafræna sjúkraskrá sem er aðgengileg með litlum fyrirvara. Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að Persónuvernd teldi þessa rafrænu sjúkraskrá komna fram úr lögum en Níls Nílsen, aðstoðarlækningaforstjóri Landspítalans, kannast ekki við að Persónuvernd hafi gert athugasemdir við meðhöndlun spítalans á rafrænum sjúkraskrám.- Hann telur þá hafa haft gott samband við Persónuvernd og upplýst hana um hvað þeir væru að gera og farið eftir lögum og reglum sem fjalla um sjúkraskár og segir Persónuvernd ekki hafa gert sérstakar athugsemdir við meðhöndlun þeirra á sjúkraskrám. Þeir sem hafa aðgang að sjúkraskýrslum eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar og aðrir sem koma beint að meðferð sjúklings. Níls segir að hver starfsmaður sem hafi með sjúkling að gera hafi persónubundið aðgangsorð sem hann þarf að slá inn til að fá aðgang og þannig geta sjúklingar beðið um að flett verði upp hverjir hafa skoðað sjúkraskrá þeirra.- Níls segir að dæmi séu um að sjúklingar hafi óskað eftir því að fá lista yfir þá sem hafa skoðað sjúkraskrá þeirra og eftir að þetta er orðið rafrænt þá er hægt að sinna þeim fyrirspurnum en það var ekki hægt áður. Í samtali við fréttastofu sagði Lúðvík Ólafsson, lækningaforstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík, að hver heilsugæsla væri með skrá yfir þá sjúklinga sem þar væru en að læknar á öðrum heilsugæslum kæmust ekki í þær skrár. Þannig væru sjúkraskrárnar ekki komnar í einn pott sem allir læknar kæmust í.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×