Innlent

Ferja milli Íslands og Evrópu

Hópur manna vinnur nú að undirbúningi þess að ferjusiglingar hefjist milli Reykjavíkur, Newcastle á Englandi og Bremerhaven í Þýskalandi næsta vor. Einnig kemur til greina að hafnarstæði ferjunnar verði í Þorlákshöfn eða á Grundartanga. Aðstandendurnir leggja mikið upp úr þægindum og tala jafnvel um lúxusferju í eigu Íslendinga. Þeir hafa undanfarið skoðað nokkur skip og sjá fyrir sér að ferjan geti orðið um eða yfir 140 metra löng, tekið allt að 1200 farþega og 200 bíla, og geti siglt frá Reykjavík inn í hjarta Evrópu á þremur dögum. Málið hefur verið á hugmynda- og umræðustigi í meira en tvö ár í fámennum hópi sem hefur fundað með fjölda aðila og kynnt hugmyndina. Guðmundur Hallvarðsson, formaður samgöngunefndar Alþingis, hefur átt fundi með hópnum og mun vera velviljaður hugmyndinni. Aðrir alþingismenn og sveitarstjórnarmenn hafa einnig sýnt málinu áhuga og vilja greiða götu þess, þó ekki standi til að ríkið fjármagni ferjusiglingarnar. Þá hefur hugmyndin einnig verið kynnt fyrir Samskipum og Eimskipum og einnig hafa einstaklingar innan ferðaþjónustunnar sýnt hugmyndinni áhuga. Um þessar mundir er verið að leggja drög að stofnun félags sem vinnur að frekari undirbúningi og öflun fjárfesta. Stefnt er að því að halda opinn kynningar- og blaðamannafund um ferjusiglingarnar um miðjan ágúst til að stækka hópinn og verður félagið stofnað í kjölfar þess. "Við sjáum enga agnúa á því að hefja siglingar næsta vor," segir Guðjón Jónsson, bílsstjóri í ferðaþjónustu og fyrrverandi skipstjóri, en hann er einn frumkvöðlanna. "Í sjálfu sér er ekki margt sem þarf að ganga upp til að það takist."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×