Innlent

Hér og nú kærir blaðið Hér og nú

Auglýsingastofan Hér og nú ehf. kærði í gær samnefnt tímarit fyrir notkun nafnsins Hér og nú og fer fram á að notkun nafnsins verði hætt. Einnig vill stofan að málið fái forgang hjá Samkeppnisstofnun vegna þeirrar neikvæðu umræðu sem verið hefur um tímaritið í fjölmiðlum undanfarið. "Við skoðuðum okkar réttarstöðu um leið og blaðið hóf göngu sína," segir Ingvi Jökull Logason, eigandi stofunnar. "En umræðan hvatti okkur til þess að flýta kæruferlinu." Hann segir bæði auglýsingastofuna og 365 starfa á sviði fjölmiðlunar og að nokkuð sé um þann misskilning að fólk telji Auglýsingastofuna vera útgefanda tímaritsins. Henni hafi borist fjöldamörg símtöl sem ætluð eru blaðinu. "Fólk hefur hringt í okkur bæði til að hella úr skálum reiði sinnar og til að koma fréttum áleiðis." Jafnvel hefur verið hringt heim til stjórnenda fyrirtækisins að kvöldi til. "Það sem skiptir samt mestu máli er óánægja viðskiptavina okkar sem vilja alls ekki tengjast nafninu Hér og nú. Sama gildir um tilvonandi viðskiptavini." Gunnar Smári Egilsson, framkvæmdastjóri 365, segist ekki geta séð að tímaritið og auglýsingastofan séu að starfa á sama vettvangi og því sé ekkert athugavert við notkun nafnsins Hér og nú. "Það er alþekkt að heiti á vöru eða þjónustu sé það sama og nafn á fyrirtækjum í óskyldum rekstri. Þannig er til dæmis Kastljós fyrirtæki í Skipholti í Reykjavík, Víðsjá fyrirtæki í Birkihlíð og Spegillinn félag í Hafnarfirði. Þá eru til ein fimm fyrirtæki sem heita Vísir. Það eru fjöldamörg álíka dæmi til."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×