Innlent

Nikkurnar þandar á Norðfirði

Fjöldi gesta streymir nú til Neskaupstaðar til þátttöku í Landsmóti harmonikuunnenda sem hefst þar í kvöld og stendur til sunnudags. Nánast allir gististaðir eru fullbókaðir en þrettán af nítján aðildarfélögum Landssambands harmonikuunnenda hafa tilkynnt þátttöku, auk þess sem stórsveit frá Færeyjum sækir mótið sem og fimm unglingasveitir. Landsmót eru haldin á þriggja ára fresti og draga til sín æ fleiri áheyrendur. Síðasta mót var haldið á Ísafirði og sóttu það um á milli átta hundruð og eitt þúsund gestir. Búist er við að mótsgestir nú verði um eða yfir eitt þúsund. Félag harmonikuunnenda á Norðfirði heldur mótið nú en félagið fagnar 25 ára afmæli sínu. Lag mótsins heitir Á vorléttum vængjum og er það vals eftir Norðfirðinginn Þorlák Friðriksson við ljóð Helga Seljan. Heiðursgestur mótsins er Sören Brix, átján ára dani, sem hefur tvisvar orðið Danmerkurmeistari í harmonikuleik. Víst er að dillandi harmonikutónar munu óma næstu þrjá daga innan norðfirska fjallahringsins og viðbúið að margur muni draga fram dansskóna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×