Innlent

Breskur og finnskur matur frábær

Almenningi í Bretlandi og Finnlandi er nú í nöp við Frakkland og Ítalíu og þó sér í lagi við leiðtoga ríkjanna tveggja. Tilefnið er orð Chiracs Frakklandsforseta og Berlusconis, forsætisráðherra Ítalíu, um að breskur og finnskur matur sé óætur. Ástandið í ríkjunum er eldfimt og stappar nærri milliríkjadeilu. Stjórnmálamenn í Bretlandi og Finnlandi hafa ekki viljað tjá sig um yfirlýsingar Berlusconis og Chiracs en leiðarahöfundar blaða hafa tekið tvímenningana á beinið. Úlfar Eysteinsson, matreiðslumeistari á Þremur frökkum, skilur úlfúð Breta og Finna enda veit hann sem er að um fátt þykir þjóðum vænna en matinn sinn. Og hann vísar ummælum leiðtoganna tveggja út í hafsauga. "Ég hef borðað mína bestu máltíð í Bretlandi og unnið með finnskum kokkum sem eru hreinir snillingar," segir Úlfar, þar sem hann stendur yfir pottunum sínum á Þremur frökkum. Og eins og það sé ekki nóg hefur Úlfar misjafna sögu að segja af frönskum kokkum. "Ég hef orðið hungurmorða í Frakklandi því ég fann ekki nógu góðan veitingastað." Úlfar átelur Berlusconi og Chirac fyrir að hafa sagt þetta en býst helst við því að þeir hafi verið búnir að fá sér aðeins í tána þegar stóru orðin féllu. "Chirac gagnrýndi líka haggis sem er þjóðarréttur Skota. Það má ekki dæma matreiðslu heillar þjóðar út frá svona löguðu. Það er til dæmis ekki hægt að segja að það sé bara ógeðslegur matur á Íslandi af því að við höfum svið og blóðmör." David Barnwell, golfkennari hjá Golfklúbbi Reykjavíkur, er breskur að uppruna en hefur búið á Íslandi um árabil. Honum sárnar ekki orð Chiracs en segir þau engu að síður þvælu. "Það er hægt að fá frábæran mat í Englandi og það má ekki miða matreiðsluna þar við aldagamla þjóðarrétti sem kunna að bragðast einkennilega," segir hann. Hin finnska Katri Raakel Tauriainen, sem hefur getið sér gott orð í Innlit/útlit á Skjá einum, er sama sinnis og David og Úlfar og bendir á að sínu föðurlandi tíðkist meðal annars að baka brauð með fiski inní. "Það þýðir ekkert að dæma finnska matargerð út frá slíkum réttum," segir hún. "Í Finnlandi eru mjög margir æðislega góðir veitingastaðir og finnskir matreiðslumeistarar hafa náð góðum árangri á alþjóða vettvangi." Katri sárnaði ekki ummæli þjóðarleiðtoganna tveggja, hún hló frekar að vitleysunni í þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×