Innlent

Mótmæla hvalveiðunum harðlega

MYND/AP
Alþjóðadýraverndunarsjóðurinn mótmælir harðlega áframhaldandi hvalveiðum við Ísland. Sjóðurinn segir það mikil vonbrigði að íslensk stjórnvöld haldi til streitu vísindaveiðum á hrefnu. Íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt að heimilaðar verði veiðar á allt að 39 hrefnum í sumar sem er stærsti útgefni kvótinn frá því hvalveiðar hófust að nýju við Ísland árið 2003. Alþjóðadýraverndunarsjóðurinn, International Fund for Animal Welfare, hafði eindregið hvatt stjórnvöld til að hafna ósk Hafrannsóknarstofnunar um kvótann og binda enda á vísindaveiðar á hval. Ellie Dickson, talsmaður sjóðsins, segir það mikil vonbrigði að veiðunum skuli haldið til streitu. Hún segir vistkerfi sjávar mjög flókið og telur það mikla einföldun að halda því fram að hvalir hafi neikvæð áhrif á fiskistofna. Engin leið sé að drepa þessar stóru skepnur á mannúðlegan hátt. Í yfirlýsingu sem Alþjóðadýraverndunarsjóðurinn sendi frá sér er miklum áhyggjum lýst yfir hugmyndum um að drepa allt að 100 hvali á næsta ári en frá árinu 2003 hafa 62 hrefnur verið veiddar í íslenskri lögsögu. Sjóðurinn styður nýtingu á hvalastofnum með hvalaskoðun og bendir á að rúmlega 80 þúsund ferðamenn hafi farið í hvalaskoðun á Íslandi á síðasta ári. Hann segist ætla að berjast áfram gegn hvalveiðum við landið um leið og hann hvetur til vistvænna hvalaskoðunarferða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×