Innlent

Býður hús fyrir störf að sunnan

Kaupfélag Eyfirðinga hefur keypt eignarhlut ríkisins á Glerárgötu 36 á Akureyri fyrir rúmar 100 milljónir króna. Tilgangurinn er að freista þess að fjölga störfum á Akureyri með því að bjóða opinberum stofnunum og einkaaðilum afnot af húsnæðinu og eru viðræður þess efnis hafnar. Smáragarður, fasteignafélag BYKO-samsteypunar, gerði ríkinu einnig tilboð í eignina og segir Guðmundur Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins, að KEA hafi boðið betur. "Smáragarður á aðrar fasteignir sem tilheyra Glerárgötu 36 en við höfum ekki tekið ákvörðun um nýtingu þeirra," segir Guðmundur. Benedikt Sigurðarson, stjórnarformaður KEA, segir ekki ljóst á þessu stigi hvernig húsið verði nýtt. "Það er yfirlýst stefna KEA að fjölga störfum á Akureyri og við höfum átt viðræður við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu um opnun starfsstöðva í húsnæðinu. Fyrirtækin eru af margvíslegum toga og hugsanlegt að KEA eignist hlut í einhverjum þeirra. Eitt af þeim fyrirtækjum sem við höfum rætt við er Smáragarður og samstarf við þá kemur vel til greina," segir Benedikt. Í apríl síðast liðnum samþykkti stjórn KEA að óska eftir viðræðum við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið annars vegar og sjávarútvegsráðuneytið hins vegar um flutning á opinberum störfum til Akureyrar og hugsanleg kaup á Íslenskum orkurannsóknum. "Í síðustu viku áttum við góðan fund með Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um þessi mál og í framhaldinu munum við ræða betur við ráðherra," segir Benedikt. KEA hefur lýst yfir áhuga á að meginstarfsemi Fiskistofu og Hafrannsóknarstofnunar flytjist til Akureyrar og er félagið tilbúið að leggja fram verulegar fjárhæðir svo af því megi verða. Að mati stjórnenda KEA er kostnaður við flutning á Fiskistofu einni og sér á bilinu 50 til 100 milljónir króna. "Í næstu viku eigum við bókaðan fund með sjávarútvegsráðherra," segir Benedikt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×