Innlent

Dráttur afsalsins ekki útskýrður

Framkvæmd húsakaupa Framsóknarflokksins af Keri er óheppileg, en ekki óeðlileg, að mati framkvæmdastjóra flokksins. Fimm ár liðu frá því samið var um kaup á húsinu, sem nú hýsir höfuðstöðvar flokksins, og þar til afsal var gefið út, eða á sama tíma og Búnaðarbankinn var seldur. Helgi Hjörvar þingmaður hefur í bréfi til formanns fjárlaganefndar meðal annars farið fram á svör við því hvers vegna ekki hafi verið greint frá því í minnisblaði Ríkisendurskoðunar að Ker hf, áður Olíufélagið Esso, hafi afsalað sér húseigninni að Hverfisgötu til Framsóknarflokksins, á sama tíma og unnið var að gerð kaupsamnings við S-hópinn, sem Ker var aðili að. Helgi telur þau viðskipti sýna að fleiri félög tengd Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra hafi átt í viðskiptum við Ker á umræddum tíma. Í svari frá Framsóknarflokknum sem barst fjölmiðlum segir að samkomulag um kaupin á húsinu hafi verið gerð árið 1997 en flokkurinn flutti starfsemi sína í húsið ári síðar. Dráttur hafi hins vegar orðið á því að gengið væri frá afsali fyrir eigninni. Það var ekki gert fyrr en í desember 2002, eða fimm árum eftir að kaupin. Á því er engin sérstök skýring segir Sigurður Einarsson framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins og hann segir að dráttuinn á gerð afsalsins sé kannski skrítinn. En hann benti á að það var búið að ganga frá öllum greiðslum áður en afsalið var gert. Aðspurður að því hvort að þetta sýni fram á tengs á milli Kers og Framsóknarflokksins segist hann ekki geta dæmt um það en þetta sýnir bara fram á að þeim virtist ekki þörf á að ganga frá afsalinu strax. Hann segir það einfaldlega tilviljun að gengið var frá afsalinu á sama tíma og sala bankans fór fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×