Innlent

Skilorð fyrir kannabisræktun

Þrír karlmenn og ein kona, öll á fimmtugsaldri voru fundin sek um vörslu fíkniefna og ræktun kannabisefna í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ræktunin fór fram í haughúsi við sveitabæ í Ölfusi. Einn karlmaðurinn hlaut 7 mánaða fangelsi, annar hlaut 6 mánuði og sá þriðji 4 mánuði en konan 45 daga og er refsing þeirra allar skilorðsbundin til tveggja ára. Þeir fyrstnefndu sátu í gæsluvarðhaldi þegar rannsókn málsins var á frumstigi í nóvember 2003 og dregst sú gæsluvarðldsvist frá dómnum. Jafnframt gerði dómurinn upptæk fíkniefni og búnað til ræktunar kannabisefna. Þau sem hlutu stystu dómana eru hjón og ábúendur sveitabæjarins á Ölfusi. Þau voru ákærð fyrir að leggja til húsnæði fyrir ræktunina og að hafa stundað plönturnar. Hinir tveir voru ákærðir fyrir að hafa lagt til fræ og kannabisplöntur, byggingarefni og nauðsynlegan tæki ræktunarinnar, hitalampa, viftur og annan búnað og að hafa unnið úr plöntunum marijúana. Í dómnum kemur fram að vegna gruns um að sá sem hlaut þyngsta dóminn stundaði sölu og dreifingu fíkniefna fékk lögreglan leyfi til að hlera síma hans. Símhlerunin leiddi til húsleitar í bænum í Ölfusi þar sem lögreglan fann í haughúsi undir fjósi á bænum, 671 kannabisplöntu, 203 grömm af marijúana og 223 grömm af kannabisstönglum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×