Innlent

Hjón slasast í gassprengingu

Maður og kona fengu annars og þriðja stigs bruna eftir gassprengingu á tjaldstæðinu í Bjarkarlundi í fyrrakvöld. Maðurinn var inni í hjólhýsi sínu ásamt konunni að skipta um gaskút þegar upp kom gasleki. Sprengingin varð þegar gasið komst í snertingu við loga sem var á gashellu inni í hjólhýsinu. Fólkið, eldri hjón, var flutt með þyrlu á bráðamóttöku í Reykjavík og er nú á lýtalækningadeild á Landspítalanum í Fossvogi. Jónas Sigurðsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Patreksfirði, segir lögreglumenn hafa verið nálægt slysstað þegar tilkynningin barst. Þegar þeir komu að var hjúkrunarfræðingur sem býr í sveitinni þegar kominn á staðinn og byrjaður að aðstoða starfsmenn hótelsins í Bjarkarlundi við aðhlynningu á fólkinu. Starfsfólkið hlúði að fólkinu fyrsta hálftímann eftir sprenginguna. Jónas segir óhætt að fullyrða að starfsmennirnir hafi staðið sig með eindæmum vel við erfiðar aðstæður. "Tveir þjónar voru inni og fólkið sem ferðaðist með parinu var að fá sér kakó þegar þau komu inn öll brunnin og í rifnum buxum með hendurnar upp í loftið," segir Sveinn Ingi Árnason, starfsmaður á Hótel Bjarkarlundi. "Það var farið með þau inn í stofu sem er hérna og þau lögð á dýnu." Hann segir að starfsfólk hafi strax hringt í Neyðarlínuna og sinnt aðhlynningu með leiðbeiningum sem fengust gegnum síma. "Það voru allir í uppnámi, bæði starfsfólkið og svo líka fólkið sem var að ferðast með þeim." Starfsemin á Hótel Bjarkarlundi hélt áfram sinn vanagang í gær en Sveinn neitaði ekki að sumir starfsmenn væru enn í dálitlu uppnámi. Lögreglan á Patreksfirði segir að um slys hafi verið að ræða og rannsókn málsins sé lokið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×