Innlent

Mikill munur á matarverði

Mikill munur var á hæsta og lægsta verði margra vörutegunda í verðkönnun sem Alþýðusamband Íslands framkvæmdi í byrjun mánaðarins. Kannað var verð á 43 tegundum matvara í ellefu verslunum og reyndist mesti munur vera yfir hundrað prósent og minnsti munur um 30 prósent. Um algengar vörur var að ræða á borð við brauð, kaffi, kornflögur, sykur og pasta og kom Bónus best út með ódýrasta verðið í 19 tilvikum. Krónan kom þar næst með lægst verð í tíu tilvikum. Skekkir það niðurstöðurnar að allnokkrar vörur sem kannaðar voru reyndust hvorki til í Bónus né Krónunni. Keðjuverslanirnar 10/11 og 11/11 komu lakast út eins og reyndar oft áður. Hæsta verðið í 21 tilviki var í 10/11 og alls þrettán sinnum reyndist 11/11 vera dýrast. Mesta úrvalið var í Samkaupum og Fjarðarkaupum en allar vörur nema ein fengust þar en fæstar fengust þær í Kaskó en þar fengust ekki fimmtán af þeim vörum sem verð var kannað á.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×