Innlent

Störfuðu lögum samkvæmt

KPMG Endurskoðun sendi í gær frá sér yfirlýsingu vegna ákæru Ríkislögreglustjóra á hendur Önnu Þórðardóttur, starfsmanni fyrirtækisins, í Baugsmálinu. Fram kemur að henni sé gefið að sök að hafa áritað ársreikninga Baugs hf. fyrir árin 2000 og 2001 án fyrirvara, en Ríkislögreglustjóri telji tilteknar upplýsingar ekki hafa verið settar fram í samræmi við lög. "Hlutverk endurskoðenda er að láta í ljós álit á því hvort reikningsskil gefi glögga mynd af afkomu og efnahag. Það er mat KPMG að endurskoðendur Baugs hf. hafi sinnt starfsskyldum sínum í samræmi við lög. Álit KPMG er að áritun á framangreinda ársreikninga Baugs hf. hafi verið með eðlilegum hætti," segir í yfirlýsingunni, en einnig sætir ákæru Stefán Hilmarsson endurskoðandi sem er starfsmaður Baugs. Tekið er fram að KPMG Endurskoðun muni ekki tjá sig frekar um málið meðan það sé til meðferðar hjá dómstólum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×