Innlent

Viðgerðum ekki nærri lokið

Viðgerðir eru í fullum gangi á vegum sem skemmdust í vatnsviðrinu á Austurlandi um helgina. Vegurinn um Fagradal milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða fór í sundur eftir skriðu og að sögn starfsmanna Vegagerðarinnar á Reyðarfirði gengur viðgerðin sæmilega. Í gær var enn mikið vatnsveður á Austurlandi sem gerði viðgerðarmönnum erfitt fyrir. Búist er við að bráðaviðgerð verði ekki lokið á veginum fyrr en seinna í vikunni og lengri tíma tekur að gera yfirborðið eins gott og það var. Á Fáskrúðsfirði eru bæjarstarfsmenn komnir á fullt með viðgerðir á skemmdum af völdum vatnsins. Tveir lækir flæddu þar úr farvegi sínum og skemmdu lóðir og götumannvirki. "Það tekur einhverja daga að gera við þetta en við erum byrjuð," segir Björgvin Baldurson bæjarverkstjóri á Fáskrúðsfirði. Stærstu viðgerðirnar eru á lóðum sem létu á sjá eftir vatnsmagnið og nefnir hann til dæmis að miklar skemmdir séu á skólalóðinni við grunnskólann. Björgvin vildi ekkert segja um áætlaðan kostnað á viðgerðunum "Við lögum þetta og svo sjáum við hvað það kostaði."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×