Innlent

Mesta úrkoma í þrjá áratugi

33 ár eru síðan Akureyringar máttu þola vætusamari júnímánuð en þann sem er nýbúinn. Úrkoman mældist 55 millímetrar í síðasta mánuði og er það tvöfalt meira en meðalúrkoman á þessum árstíma. Fara þarf aftur til ársins 1972 til að finna dæmi um meiri úrkomu á Akureyri í júní, þá var úrkoman 112 millímetrar. "Það er búið að blóta veðrinu töluvert á mínu svæði," segir Gestur Einar Jónasson, útvarpsmaður á Akureyri og mikill áhugamaður um veður. Hann segir þó þann kost við rigninguna að bæði hafi allt verið orðið skraufaþurrt og því gott að fá rigningu og hitt að þó rigningin á Akureyri sé jafn blaut og annars staðar komi hún beint niður. Athygli vekur að þessi óvenju mikla rigning á Akureyri er aðeins rétt rúmlega í meðaltali þess sem Reykvíkingar eiga venjast. "Það er vont að bera þetta saman við Reykjavík, það mikla rigningarbæli," segir Gestur Einar og hlær. Reykvíkingar fengu þó heldur betra veður í júní en Akureyringar, meðalhiti í Reykjavík var 10,5 gráður, það er hálfri annarri gráðu meira en í meðallagi og einni gráðu heitara en á Akureyri í síðasta mánuði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×