Innlent

KPMG ver endurskoðanda Baugs

Það er mat KPMG endurskoðunar, að endurskoðandi félagsins, sem áritaði ársreikninga Baugs fyrir árin 2000 og 2001 hafi sinnt starfsskyldum í samræmi við lög, en hann hefur verið ákærður fyrir lögbrot. Þetta eru viðbrögð KPMG við ákæru Ríkislögreglustjóra á hendur eins endurskoðanda fyrirtækisins vegna áritunar á reikningana, án athugasemda, en Ríkislögreglustjóri telur að tilteknar upplýsingar í ársreikningunum hafi ekki verið settar fram í samræmi við lög. Í yfirlýsingu frá KPMG segir að hlutverk endurskoðenda sé að láta í ljós álit á því hvort reikningsskil gefi glögga mynd af afkomu og efnahag. Ekki fæst úr því skorið hvort endurskoðunarfyrirtækið er með þessu að segja að Ríkislögreglustjóri hafi á röngu að standa um meint lögbrot eða ekki, þar sem fyrirtækið ætlar ekki að tjá sig frekar um málið meðan það er til meðferðar dómstóla. Það er því einna helst frið að líkjast ratleik að afla nýrra upplýsinga um málið þar sem ekki er hægt að fá að vita um hvað ákæran snýst í raun og veru, fyrr en málið verður þingfest 17 ágúst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×