Innlent

Talsvert tjón vegna rigninga

Gríðarleg rigning á Austurlandi olli víða tjóni í gær. Um hádegisbil féllu skriður á veginn í Fagradal milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða og var veginum fljótlega lokað vegna skemmda og hættuástands. Vegurinn var lokaður allan daginn í gær. Víða varð mikið flóð í ám og lækjum og minnstu munaði að Fossá í Reyðarfirði ylli tjóni við bæinn Sléttu. Sigurður Baldursson, bóndi á Sléttu, sagðist í samtali við Fréttablaðið ekki muna eftir slíkum rigningum á þessum árstíma. Áin stíflaðist skammt frá bænum og á tímabili virtust mannvirki á bænum vera í hættu. Með öflugum vinnuvélum tókst að beina ánni í réttan farveg og afstýra hættuástandi. Á Fáskrúðsfirði varð töluvert tjón vegna rigninganna. Lækur stíflaðist og breytti um farveg með þeim afleiðingum að vatn og drulla rann yfir götur bæjarins og inn í garða. Töluverðar skemmdir urðu í görðum en gatnamannvirki sluppu að mestu. Þá lak inn í kjallara á húsi í bænum. Ljósleiðari Símans á Austurlandi rofnaði um hádegisbil í gær vegna aurskriðunnar í Fagradal. Bilunin hafði engin áhrif á talsímasamband en útsendingar Ríkissjónvarpsins láu niðri á Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði, Breiðdalsvík og Djúpavogi. Þá hafði bilunin einnig áhrif á gagnaflutninga í gegnum internetið víða á Austfjörðum og GSM sambandslaust var á Fáskrúðsfirði.Vegna ófærðar komust viðgerðarmenn ekki á staðinn í gær en vinna við viðgerð hefst í dag um leið og veður leyfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×