Innlent

200 bíða eftir að komast í meðferð

Enn er vika í að eftirmeðferðarstöð SÁÁ að Vík á Kjalarnesi opnar eftir sumarlokun en þá verður skellt í lás að Staðarfelli í Dölum. Loka hefur þurft eftirmeðferðarstöðvunum í sex vikur undangengin sumur vegna peningaleysis. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir vissulega slæmt að þurfa að loka en við það sparist peningar. "Það er kostnaðarsamt að ráða fólk til afleysinga," segir hann og svíður vitaskuld að vísa fólki frá og segja því að koma seinna. Starfsfólki á Vogi hefur líka fækkað frá í fyrra af sömu orsökum. Um 200 manns bíða nú eftir að hefja áfengismeðferð hjá SÁÁ. "Okkur tókst að tæma biðlistann fyrir nokkru en hann hefur vaxið aftur í ár," segir Þórarinn, sem myndi bæta bráðaþjónustu sjúkrahússins ef honum áskotnuðust meiri peningar til rekstrarins. Fólk af báðum kynjum og á öllum aldri bíður þess að komast í meðferð en þess er gætt að 19 og yngri séu lagðir inn í snatri. Unglingadeildin sem tekin var í gagnið fyrir nokkrum árum tryggir að það sé mögulegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×