Innlent

Önnur Dornier í flota Landsflugs

Önnur Dornier 328 flugvél hefur bæst í flota Landsflugs en vélin verður notuð í innanlandsflugi. Forsvarsmenn félagsins segja mikla spurn eftir leiguflugi innanlands eina helstu ástæðuna fyrir kaupunum á vélinni. Vélin sem kynnt var í gær er sú sjötta í flota Landsflugs og City Star sem er nafnið sem félagið notar erlendis. Fyrir í flotanum er ein Dornier 328 vél sem eingöngu hefur verið notuð til áætlunarflugs á milli Oslóar og Aberdeen og í leiguflugi á milli Íslands og Skotlands. Nýja vélin verður hins vegar líka notuð í leiguverkefni hér innanlands, enda er eftirspurnin hér á landi mikil að sögn Atla Georgs Lárussonar, stjórnarformanns Landsflugs. Og fyrstu mánuðina verður hún reyndar eingöngu í leiguverkefnum. Vélin er þrjátíu og tveggja sæta og er mjög tæknivædd og til að mynda er flugstjórnarklefinn nánast eins og í Airbus 380, stærstu farþegaþotu í heimi sem kynnt var með pompi og prakt í Frakklandi fyrir skemmstu. Eldri gerðin af Dornier, nítján sæta sem er notuð í innanlandsflug, verður hálf ræfilsleg í samanburðinum. Atli segir að eðli málsins samkvæmt sé stefnan sett á að færa enn frekar út kvíarnar í öðrum löndum en félagið leggi engu að síður mikla áherslu á varfærni og að stækkunin sé jöfn og þétt. Þeir vilja líka stækka innan frá. Og Atli, sem sjálfur er flugmaður, segir að maður þurfi að komast í Airbus 380 til þess að fara upp á við, eftir að búið sé að fljúga Dorniernum. Annars sé maður að taka „pínuponsu niður fyrir sig.“  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×