Innlent

Aukið samstarf gæslunnar við BNA

Bandarískur aðmíráll boðar aukið samstarf bandarísku strandgæslunnar og Landhelgisgæslunnar hér á landi. Forstjóri Landhelgisgæslunnar var nýverið í Bandaríkjunum í boði strandgæslunnar þar og nú er yfirmaður bandarísku strandgæslunnar að endurgjalda heimsóknina, en mikil samskipti hafa verið á milli þessara tveggja stofnana. Thomas Collins aðmíráll segir að strandgæslurnar eigi mörg mál sameiginleg, t.d. fiskveiðieftirlit, eftirlit með skipum sem komi inn í landhelgi og leitar- og björgunarstörf. Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að allnokkurt samstarf sé á milli gæslnanna, sérstaklega á sviði þjálfunar og menntunar, auk þess sem skipst sé á upplýsingum um skipaferðir.  Collins segir hlutverk strandgæslna hafa breyst mikið eftir árásirnar 11. september og hann sér fram á að samstarf þeirrar íslensku og bandarísku eigi eftir að aukast. Meðal þess sem hann bendir á er að Íslendingar geti sótt um inngöngu í háskóla strandgæslunnar og útskrifast þar með gráðu. Hann segir starf Landhelgisgæslunnar einkennast af fagmennsku og búnaðurinn sé góður þrátt fyrir aldur. „Þessi fáu skip eru í mjög góðu ástandi og elstu skipunum er ótrúlega vel viðhaldið,“ segir Collins. Endurnýjun tækjakosts stendur einmitt fyrir dyrum hjá gæslunni, bæði á að fá nýja flugvél og nýtt varðskip í staðinn fyrir Óðinn. Georg segist reikna með að það muni ganga eftir og vonast eftir að þetta tvennt verði komið í gagnið innan tveggja ára.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×