Innlent

Lausn í sjónmáli

Háskólinn á Akureyri og Menntamálaráðuneytið hafa gert með sér drög að samkomulagi til að leysa fjárhagsvanda Háskólans. Samkvæmt því samkomulagi mun háskólinn fá söluandvirði eignarhluta ríkisins í Glerárgötu 36 á Akureyri, sem er um 100 milljónir króna. Verður sú fjárhæð notuð til að greiða leigu fyrir Borgir, sem er nýtt rannsóknarhús Háskólans á Akureyri. Þá mun menntamálaráðuneytið, samkvæmt þessum drögum, beita sér fyrir því að skólinn fái um 40 milljónir í aukafjárveitingu á þessu ári. Á móti mun Háskólin á Akureyri spara í rekstri skólans, meðal annars með því að innrita ekki nemendur á fyrsta ár í upplýsingatæknideild. Í samkomulaginu er jafnframt kveðið á um að fjárveitingar skólans til næstu fjögurra ára miðist við sex til átta prósenta fjölgun nemenda. Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri segir að slíkt sé vel viðunandi, en muni hægja á vexti skólans. Steingrímur Sigurgeirsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, sagðist í gær ekki vilja tjá sig um málið á meðan enn er verið að vinna að samningnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×