Innlent

Viðgerð frestað til sunnudags

Viðgerð á Farice-sæstrengnum, sem rofnaði við Edinborg í Skotlandi í gær og olli töf og truflun á talsímaumferð og netsambandi héðan við útlönd í gærmorgun, mun líklega ekki fara fram fyrr en aðfararnótt sunnudags. Guðmundur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Farice, segir ljósleiðarann liggja yfir Firth of Forth járnbrautarbrúna í Edinborg og svo óheppilega vilji til að bilunin er á brúnni. Erfitt er að komast að bilunarstaðnum nema stöðva alla umferð um brúna og mun því viðgerð líklega ekki fara fram fyrr en aðfararnótt sunnudags nk. Fjarskiptafyrritækið THUS í Skotlandi mun reyna að tengja umferð Farice eftir öðrum leiðum þangað til viðgerð lýkur. Viðskiptavinir Farice á Íslandi og í Færeyjum hafi varaleiðir um eldri sæstrenginn, Cantat-3, og fer nú öll fjarskiptaumferð landanna tveggja um hann. Í tilkynningu frá Og Vodafone segir að þessi tenging anni ekki eftirspurn vegna bilunar í Farice-sæstrengnum. Netnotendur hjá Og Vodafone geta því búist við töfum þar til viðgerð er lokið. Viðskiptavinir eru beðnir afsökunar á þeim óþægindum sem þeir verða mögulega fyrir. Talsamband hjá viðskiptavinum Og Vodafone við útlönd er hins vegar í fullum gæðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×