Innlent

Að óbreyttu skerðist lífeyririnn

"Samkomulag við Landsbankann var gert í góðri trú á sínum tíma," segir Friðbert Traustason stjórnarformaður Líffeyrissjóðs bankamanna. Hann bætir við að að óbreyttu geti sjóðurinn ekki staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar. "Það er hins vegar svo að samkomulagið um að setja á fót nýtt kerfi sem tryggir afkomu lífeyrissjóðsins er hvergi til skjalfest." Eigendur Landsbankans líta svo á að engar bakábyrgðir gagnvart lífeyrissjóðnum séu í gildi og svo hafi ekki verið frá því gert var upp við Lífeyrissjóð bankamanna árið 1997 í aðdraganda þess að ríkisbönkunum var breytt í hlutafélög og þeir síðan einkavæddir. Svo sem greint var frá í Fréttablaðinu í gær hefur Lífeyrissjóðurinn nú höfðað mál gegn Landsbankanum og ríkinu. Meginkrafa sjóðsins er að Landsbankinn viðurkenni bakábyrgðir vegna vaxandi skuldbindinga sjóðsins með sama hætti og var fyrir árslok 1997. Til vara krefst lífeyrissjóðurinn liðlega 2,6 milljarða króna skaðabóta vegna tjóns sem sjóðurinn telur sig hafa orðið fyrir vegna rangra útreikninga . Friðbert Traustason segir að launaskriðið í Landsbankanum frá árinu 1999 hafi verið allt annað og meira en búist var við eftir að bankinn var seldur. Gert hafi verið ráð fyrir 27 prósenta meðalhækkun til ársins 2002. Raunin hafi hins vegar orðið 48 prósenta hækkun. Lífeyrir sjóðsfélaga miðast við laun sem þeir hafa við starfslok. Hafi laun starfsmanns með langan starfsaldur hækkað verulega síðustu þrjú árin sem hann starfaði þarf sjóðurinn að standa skil á hækkuðum greiðslum til hans í takt við lokalaunin. "Sjóðurinn er yfir hættumörkum nú með 11,8 prósenta neikvæða afkomu. Okkur ber að grípa til aðgerða strax og við skríðum yfir 10 prósenta markið. Takist ekki að rétta við fjárhag sjóðsins, til dæmis með málaferlum sem við reynum nú, fáum við vafalaust tilmæli frá Fjármálaeftirlitinu um að skerða lífeyrisgreiðslur. Það verðum við að gera í síðasta lagi um næstu áramót. Aðildarfélög eins og Landbankinn verða að bera bakábyrgð. Annars er sjóðurinn dauðadæmdur," segir Friðbert Traustason.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×