Erlent

Bush og Schröder funda

Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, fundaði með George W. Bush Bandaríkjaforseta í gær. Fyrr um daginn fór kanslarinn formlega fram á við þýska sambandsþingið að greidd yrðu atkvæði um traust á ríkisstjórnina. Kjarnorkuáætlun Írana var ofarlega á baugi á fundi leiðtoganna eftir að Mahmoud Ahmadinejad, nýkjörinn forseti landsins, lýsti því yfir að auðgun úrans yrði hafin að nýju. Ríkisstjórnir á Vesturlöndum óttast að Íranar hyggist nota úranið til smíði kjarnorkuvopna. Því skoruðu leiðtogarnir á Írana að láta af vinnslunni enda yrði smíði kjarnorkuvopna ekki liðin. Bush og Schröder ræddu einnig um áhuga Þýskalands á að fá fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Bush gaf lítið út á kröfur Þjóðverja í þessum efnum og sagði aðeins að stjórn hans væri þeim ekki mótfallin. Fyrst þyrfti hins vegar að gera yrði róttækar breytingar á samtökunum áður en tímabært væri að huga að slíku. Áður en Schröder hélt til Washington fór hann fram á við þýska sambandsþingið að það greiddi atkvæði um traust á ríkisstjórn sína. Kanslarinn býst við að traustsyfirlýsingin verði felld en þá getur hann óskað eftir því við Horst Köhler forseta að boðað verði til kosninga. Atkvæðagreiðslan verður að líkindum á föstudag og kosningarnar svo með haustinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×