Innlent

Neyðast til að kveðja í kyrrþey

Kostnaður vegna jarðarfara og erfidrykkju er orðinn svo mikill að margir neyðast til að kveðja látna ástvini í kyrrþey. Kirkjan segir það óheillaþróun að jarðarfarir reynist mörgum fjárhagslegur baggi. Á Prestastefnu í Neskirkju hefur meðal annars verið rætt um helgisiði og handbók kirkjunnar og hafa umræðuhópar tekið til umfjöllunar málefni varðandi messur, skírn, hjónavígslu og útfarir. Innan kirkjunnar hafa menn áhyggjur af þróun jarðafara hér á landi, sérstaklega þeim mikla kostnaði sem fylgir erfidrykkju. Kristján Valur Ingólfsson, prestur á Þingvöllum, segir að hugsanlegt sé að þær séu fjárhagslegur baggi á fólki. Það komi m.a.fram í því að það aukist að útfarir fari fram í kyrrþey. Þá losni fólk m.a. við þann kostnað sem fylgir erfidrykkjunni. Krisjtán segir að það sé ekki lengur neinn svangur eins og í gamla daga þegar jarðarförin tók allan daginn og fólk kom kannski langa leið að og þurfti að fá eitthvað að borða áður en það hélt heim. Menn innan kirkjunnar vilji gjarnan að erfidrykkjur séu einfaldari í sniði með minni kostnaði. Það þurfi ekki að borga mörg þúsund krónur fyrir hvern gest þegar verið sé að hugsa um nærveru og vinsemd. Ýmsir telja að einhvers konar samkeppni um að halda fína erfidrykkju kunni að leiða til þess að tilefnið gleymist. Kristján Valur segir að aðalatriði verði þá að fara í kaffið en ekki að kveðja hinn látna. Af þessu hafi kirkjan líka áhyggjur. Ferli útfararinnar eigi ekki að rjúfa. Hinn látni sé borinn fram fyrir Guð í kirkjunni og svo sé honum fylgt síðustu skrefin í kirkjugarðinum og svo sé hægt að fara í kaffi eða annað. Það hljóti að vera þannig að megininntak athafnarinnar sé að sýna hinum látna virðingu en hann sjá ekki neina virðingu í því að geyma hinn látna úti í bíl á meðan fólk fari í kaffi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×