Innlent

Höfum hóflegar væntingar

Talsmenn þeirra sem styðja hvalveiðar í atvinnuskyni segjast hafa nærri því nógu mörg atkvæði til að fá hvalveiðibanninu hnekkt. Það hefur verið í gildi síðan árið 1986. Til að fá banninu hnekkt þurfa að minnsta kosti tveir þriðju af 66 aðildarríkjum hvalveiðiráðsins að kjósa svo. "Við höfum hóflegar væntingar. Afnám hvalveiðibannsins verður stærsta málið á dagskrá, en ég á ekki von á því að því verði aflétt á þessum fundi," segir Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra. "Síðasti fundur var nokkuð jákvæður en það hefur lítið gerst síðan og ég á því ekki von á mjög róttækum breytingum í ár." Árni segir að undanfarin hafi staðan verið að breytast smám saman hvalveiðisinnum í vil. "Ég vonast því til að það verði að minnsta kosti tekin ákveðin skref í átt að því að aflétta banninu," segir Árni. Hvalveiðisinnar benda á að þó þeir nái ekki því lágmarki sem þarf til að hnekkja banninu geti þeir komið ýmsum minniháttar breytingum í gegn, til dæmis leynilegum atkvæðagreiðslum. "Það er of snemmt að spá um hvort það verði gert, en persónulega finnst mér að ef einhverjir vilja leynilegar atkvæðagreiðslur sé sjálfsagt að þær fari fram." Önnur mál sem búist er við að fái mikla athygli á fundinum eru hvalveiðar Japana í vísindaskyni, en rétt eins og Íslendingar selja þeir hvalkjötið í verslunum. Japanir veiða að jafnaði um 600 hrefnur að ári og munu hugsanlega tilkynna að þeir ætli að hækka kvótann. Noregur er hins vegar eina ríkið í Alþjóðahvalveiðiráðinu sem veiðir hvali í atvinnuskyni í trássi við bannið. Árni segir að hrefna verði örugglega veidd í vísindaskyni við Ísland í sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×