Innlent

90 ár frá kosningaréttinum

Níutíu ár eru í dag liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt. Af þessu tilefni er búið að boða til mikillar hátíðar á Þingvöllum og hefst dagskráin formlega klukkan eitt þegar gengið verður niður Almannagjá við undirleik lúðraþyts og kvennasöng. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, flytur hátíðaávarp og fjölmargar aðrar konur minnast tímamótanna með sínum hætti. Hópferðamiðstöðin verður með rútuferðir frá höfuðborginni að Þingvöllum og kostar ferðin fimm hundruð krónur. Lagt verður af stað frá Tækniháskólanum og Aðalbyggingu Háskóla Íslands klukkan tólf. Heimferðir verða á fimmtán mínútna fresti frá klukkan fjögur til fimm. Hellirigning er á höfuðborgarsvæðinu þessa stundina og má því segja að ekki viðri vel til hátíðahalda en íslenskar konur eru þó ekki vanar að láta smá bleytu trufla sig, enda enginn verri þótt hann, eða hún, vökni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×