Erlent

Sögulegar súdanskar sættir

Súdönsk yfirvöld skrifuðu undir sáttasamning við ein stærstu andspyrnusamtök landsins, Lýðræðisbandalagið, í gær. Það var gert í viðleitni til að enda sextán ára átök í landinu og vonast stjórnin til að það muni stuðla að lausn þeirra blóðugru deilna sem hafa átt sér stað í Darfur. Samningurinn, sem unnið hefur verið að í eitt ár, tók þó ekki á tveimur umdeildum málum, það er því hversu stórt hlutverk Lýðræðisbandalagið muni skipa í ríkisstjórninni og að hvaða leyti her bandalagsins muni renna saman við súdanska herinn. "Við höfum sameinað markmið okkar til að bæta súdönsku þjóðinni upp allt sem hún hefur farið á mis við á tímum átakanna," sagði Omar el-Bashir, forseti Súdans. Lýðræðisbandalagið er regnhlífarsamtök þrettán stjórnmálaflokka. Þessir flokkar hafa reynt að losa um tök el-Bashir á völdum í landinu síðan hann gerði herforingjabyltingu þar árið 1989. Mirghani, yfirmaður Lýðræðisbandalagsins, Taha, varaforseti Súdans, og Garand, leiðtogi Súdanska frelsishersins, hittust svo aftur seint í gærkvöld til að reyna að leysa önnur mál. Þeir segjast allir vonast til að sáttin muni hjálpa til við að binda enda á blóðbaðið sem hefur viðgengist í vesturhluta Darfur þar sem að minnsta kosti 180 þúsund manns hafa látið lífið og tveimur milljónum hefur verið misþyrmt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×