Skoðun

Dauðadómur eða endurfæðing?

Þórlindur Kjartansson skrifar
Stofnun Evrópusambandsins og aukið samstarf milli ríkja álfunnar hefur hingað til verið til mikillar blessunar. Vitaskuld hefur ekki allt verið sem skyldi en hins vegar hafa öll helstu markmið samstarfsins náð fram að ganga, fyrst og fremst að ófriður milli ríkja innan bandalagsins er nánast óhugsandi.

Það hefur hins vegar einkennt Evrópusambandið allt frá stofnun þess að með reglulegu millibili eru gerðar tilraunir til þess að binda aðildarríkjanna þéttari böndum. Eftir að svonenfndur stjórnarskrársáttmáli ESB var felldur í Frakklandi og Hollandi sér fyrir endann á einni slíkri bylgju. Almenningur í Evrópusambandslöndunum er að senda skilaboð um að hugmyndir valdhafanna séu allt aðrar en þeirra eigin.

Sú gagnrýni á Evrópusambandið að það sé ólýðræðislegt á við töluverð rök að styðjast. Vald Evrópusambandsins er að stærstum hluta fengið frá ríkisstjórnum aðildarlandanna en efast má um þá hugmynd að stjórnvöldum sé í raun heimilt að framselja slíkt vald í þeim mæli sem gert hefur verið. Flest aðildarríki sambandins munu til að mynda samþykkja stjórnarskrársáttmálann án þess að leita samþykkis hjá almenningi. Þjóðþingin munu einfaldlega samþykkja plaggið hvort sem almenningi líkar það betur eða verr.

Holland og Frakkland eru bæði meðal þeirra sex þjóða sem stofnuðu Evrópusambandið og hafa hingað til verið talin til þeirra sem lengst vilja ganga í að þjappa ríkjunum saman og gera sambandið smám saman líkar fullburða ríkjasambandi í ætt við Bandaríkin. Það að samrunaferlið skuli hrökkva í baklás í þessum tveimur ríkjum er því nokkuð sem hlýtur að valda því að valdakjarninn í ESB staldri við og hugsi sinn gang. Ef samrunaferlinu er þröngvað upp á almenning er hætta á því að smám saman brotni þolinmæðin og stjórnmálamenn sem vilja leysa upp sambandið nái fótfestu í aðildarlöndunum.

Nú þegar er ljóst að franskir stjórnmálamenn munu bregðast við kosningunni með friðþægingarpólitík. Helstu umkvörtunarefnin gegn Evrópusambandinu í Frakklandi lúta að viðskiptafrelsi og því haldið fram að frjálshyggja og engilsaxneskur kapítalismi ráði öllu um stækkun og þróun Evrópusambandsins. Frakkar telja að ráð gegn þessu sé að flytja út sínar aðferðir við hagstjórn og velferð.

Ef Evrópusambandið mun breyta áherslum sínum í þá veru að neyða önnur ríki til að taka upp vitleysuna sem viðgengst í frönsku efnahagslífi - í stað þess að Frakkar þurfi að hugsa sinn gang - þá er hætta á því að framtíð Evrópusambandsins sé ekki sérlega björt.

Ef ráðandi öfl í Evrópusambandinu munu hins vegar halda áfram að beina sjónum sínum að fríverslunarþættinum í Evrópusamstarfinu en leyfir aðildarríkjunum að öðru leyti að marka sína eigin stefnu getur verið að áfallið sem varð í Hollandi og Frakklandi verði Evrópusambandinu til blessunar en ekki bölvunar.

Þórlindur Kjartansson




Skoðun

Sjá meira


×