Innlent

Landsspítalinn sambandslaus

Landsspítali Háskólasjúkrahús var símasambandslaus frá því um ellefuleytið til klukkan þrjú í gær. Einnig lágu öll tölvukerfi Spítalans niðri en bilun kom upp í aðalnetkerfi sjúkrahússins með þeim afleiðingum að tölvu- og innra símkerfið datt að mestu leyti út. Spítalinn var þó alltaf í sambandi við Neyðarlínu og sjúkrabíla í gegnum svokallað Tetra-kerfi sem er utan við kerfið sem bilaði í gær. "Við vorum hérna með gemsana og talstöðvar alveg á fullu," segir Ardís Henriksdóttir aðstoðardeildarstjóri á bráðamóttöku. "Og svo varð maður bara að skokka upp á næstu hæð til að tilkynna komu sjúklinga." Hún segir þó að enginn skaði hafi hlotist af annar en sá að allt gekk mun hægar en vanalega. "Við gátum til dæmis ekki fengið niðurstöður úr rannsóknum því tölvurnar lágu niðri en verst var að aðstandendur sjúklinganna og aðrir náðu ekki sambandi við okkur til að spyrjast fyrir um sitt fólk fyrr en seint og um síðir en allir sýndu þessu skilning. Svo erum við náttúrlega orðin afar óvön því að handskrifa allt en nú fengum við æfingu í því." Ardís segir að mikið hafi reynt á starfsfólkið en allir reynst starfi sínu vaxnir við þessar óvenjulegu aðstæður sem sköpuðust. Að sögn Ingólfs Þórissonar framkæmdastjóra tæknimála spítalans varð bilunin í svokölluðum skipti í netkerfinu sem sendi frá sér boð með þvílíkum hraða að netkerfið fylltist útsendingum með fyrrgreindum afleiðingum. "Við erum með tvöfalt símkerfi þannig að þegar eitt dettur út á annað að taka við og nú erum við að kanna af hverju það gerðist ekki í þessu tilfelli," segir Ingólfur. "Í tilfellum sem þessum er farið eftir öryggisreglum sem kveða meðal annars á um að talstöðvum og gemsum sé dreift á alla staði svo hægt sé að ná í lækna og aðra starfsmenn og það gekk allt eftir í gær," bætir hann við. Starfsemi Landsspítalans er í Fossvogi, Hringbraut, Landakoti, Dalbraut og einnig á Kleppsspítala svo margir fundu fyrir bilunninni í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×