Innlent

Þotugnýr yfir Reykjavík

Þotugnýr buldi yfir Reykjavík á tólfa tímanum þegar fallinna Bandaríkjamanna á Íslandi var minnst.   Minningardagur Bandaríkjamanna, eða „Memorial Day“, er í dag og þá minnast þeir fallinna bandarískra hermanna. Talið er að 239 Bandaríkjamenn hafi fallið við skyldustörf á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni. 201 var grafinn í Fossvogskirkjugarði en líkamsleifar þeirra voru fluttar til Bandaríkjanna í stríðslok. Fyrir tveimur árum var reistur minnisvarði um þá í garðinum og klukkan ellefu í morgun var þeirra minnst við hátíðlega athöfn. Heiðursvörður stóð þar en yfirmaður Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi fluttu ávörp og biskup Íslands fór með bæn. Laust fyrir klukkan hálf tólf flugu síðan orrustuþotur hersins á Keflavíkurflugvelli heiðursflug yfir Fossvog og Reykjavíkurflugvöll og fylgdi því mikill gnýr.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×