Innlent

Mesta aðsókn í 17 ár hjá LA

Skuldir Leikfélags Akureyrar hafa minnkað um helming frá fyrra ári. Leikhússtjórinn gerir ráð fyrir að félagið verði skuldlaust árið 2006 en aðsókn hefur ekki verið meiri í sautján ár. Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, segir að þó svo að rekstrarbati hafi orðið hjá félaginu sé varla hægt að tala um hagnað þar sem félagið fái styrki frá Akureyrarbæ. Hann segir rekstrarafgang þó verða í ár en of snemmt sé þó að segja til um hversu mikill hann verði. Skuldir Leikfélagsins voru um 30 milljónir króna í aprílmánuði í fyrra en eru nú helmingi lægri eða um 15 milljónir króna en eins og fyrr segir stefnir stjórn félagsins á að skuldirnar heyri sögunni til í lok næsta árs. Magnús segist vissulega ánægður með árangurinn, en hverju er að þakka? Magnús Geir segir að fyrst og fremst sé það frábæru starfsólki og listamönnum sem hafi unnið í leikhúsinu í vetur og svo virðist fólk hafa haft áhuga á þeim verkum sem sett hafi verið upp. Listamennirnir hafi kallað fram einhvern galdur sem hafi dregið fólk í leikhúsið. Magnús Geir segir að fast hafi verið tekið á rekstri félagsins og fjölmörgum leikurum hafi verið sagt upp enda reksturinn kominn í betra horf en áður. Þó komi nú mun fleiri að hverri leiksýningu en áður sem hafi gert það að verkum að aðsókn hefur aukist til muna en áhorfendur leikfélagsins hafa ekki verið fleiri í rúm sautján ár. Leikhúsgestir eru nú um 16.700 en síðustu sex árin hefur þessi tala verið í kringum sex þúsund og er því um tæplega þreföldun áhorfenda að ræða. Magnús Geir segir að það sé bjart fram undan. Nú sé horft fram á næsta leikár sem verði mjög spennandi. Verið sé að leggja lokahönd á það og það verði kynnt þegar líða taki á sumar. Nóg verði af skemmtilegum verkum á boðstólunum næsta vetur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×