Innlent

Krafist bankaábyrgðar

Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ kröfðu þá sem sóttu um byggingalóðir í Tröllateigshverfi árið 2003 um bankaábyrgð. Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri segir ánægju hafa ríkt um þessa ákvörðun. "Við tókum þá ákvörðun að umsækjendur myndu sýna fram á bankaábyrgð fyrir heildarkostnaði framkvæmda á viðkomandi lóð. Við erum mjög ánægð með þá ákvörðun okkar því hverfið hefur byggst vel upp og okkur er ekki kunnugt um nein vandræði sem hlotist hafa af framkvæmdunum," segir Ragnheiður. Hún segir næstu úthlutanir í Mosfellsbæ vera í hinu nýja Krikahverfi og ekki hafi verið tekin formleg ákvörðun um hvort farin verði sama leið en hún ætti við jafnt fyrirtæki og einstaklinga. Fjöldi íbúa í Grafarholti í Reykjavík hefur lent í vandræðum vegna gjaldþrots verktaka og dæmi eru um að húseigendur hafi þurft að leggja út í mikinn kostnað og vinnu við að leita réttar síns. Eyjólfur Bjarnason, byggingatæknifræðingur hjá Samtökum iðnaðarins, segir spurður um hvort slíkar reglur um bankaábyrgð séu ekki nauðsynlegar fyrir verktaka að SI hafi ekki leitt hugann að slíku. "Þetta er eitthvað sem er alveg hægt að athuga en trygging væntanlegs eiganda fyrir íbúð getur líka verið fólgin í því að greiðslum sé stillt í takt við það sem framkvæmt er. Þegar framkvæmdinni er lokið og ekki fyrr, eigi að vera hægt að greiða fyrir íbúðina," segir Eyjólfur. Hann bendir á að hér sé um ræða mál sem varði mikla hagsmuni og fara þurfi varlega í sakirnar. "Oft er um að ræða allt sparifé einstaklinga og fjölskyldna og það þarf að fara afar varlega í mál af þessum toga og við verðum að hafa í huga að fasteignasalar geta oft borið verulega ábyrgð," segir Eyjólfur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×