Innlent

Reyndi að úthýsa Vallarvinum

Systurfyrirtæki Icelandair, Flugþjónustan á Kelfavíkurflugvelli ehf., reyndi með beinskeittum og sértækum aðgerðum að hrekja keppinauta sína Vallarvini ehf. af markaðnum. Þetta kemur fram í bráðabirgðarákvörðun Samkeppnisstofnunar. Bæði fyrirtækin reka þjónustu fyrir flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli en Flugþjónustan er í yfirburðarstöðu af því er fram kemur í ákvörðuninni. Einnig er ósamvinnuþýði Flugþjónustunnar við Samkeppnisstofnun sögð ámælisverð. Ástæðan fyrir kæru Vallarvina er sú að Flugþjónustan gerði þýska flugfélaginu LTU afar lágt verðtilboð en þá var flugfélagið helsti viðskiptavinur Vallarvina. Samkeppnistofnun segir að Flugþjónustunni sé óheimilt að gera samninga sem fela í sér einkakaup á þjónustu félagsins og selja þá þjónustu á verði sem stendur ekki undir föstum og breytilegum kostnaði við hverja afgreiðslu. Gunnar Ólsen framkvæmdarstjóri Flugþjónustunnar segir að niðurstaðan hafi komið sér á óvart og Samkeppnisstofnun megi eiga von á andsvari fljótlega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×